Ég á Facebook | Hafa samband | Veftré | Mín eldri síða
 
14.07.2015 - Að blanda sér í pólitík!

Ég er ekki vanur að drepa niður penna og hef frekar haldið að mér höndum í þeim efnum því nóg er um skrif annarra um ýmis þjóðleg málefni, bæði innan- sem utanlands, sem ég er bæði sammála og ósammála. En eftir að hafa lesið grein Ara Trausta Guðmundssonar er birtist hér í Fréttablaðinu um daginn, um samstöðu vinstri manna, þá fannst mér kveða við tón sem mörgum félagshyggjumönnum ætti að vera hugleikinn og jafnframt hvatning, - því stutt er til kosninga. Ég er honum hjartanlega sammála og get líka svarað þeirri spurningu játandi um að hvort það sé tími til kominn að mynda samstöðu meðal félagshyggjufólks fyrir næstu kosningar. Ég hef svipaða fortíð og hann í pólitík og var ekki ágegnt frekar en honum og þannig var einnig um marga góða félaga okkar, er hafa reynt án árangurs að ná eyrum vinstra fólks um sameiningu, en ekki orðið ágengt. En með góðu gengi “sjóræningjanna” um þessar mundir hlýtur vekja þessa sömu aðila til umhugsunar, minnugir þess að margir hlógu þegar Besti flokkurinn bauð grínastann fram sem borgarstjóra! Fyrir mér er samstaða fyrir hendi einmitt í dag, ef rétt er á málum haldið, án þess að verið sé að troða öðrum um tær. Þau ólíku sjónarmið sem uppi eru meðal félagshyggjufólks, hvort sem það eru anarkistar, kommúnistar, kratar, jafnréttishreyfingar, náttúruverndarsinnar og allt þar á milli, - þá eru sjónarmið þeirra og hitinn sem að baki þeim eru stundum svo mikill að rósemi er ekki gætt, að samheldni og hagsmunatengsl frjálshyggjunnar er oft á tíðum orðræðunni yfirsterkari þar sem hún hefur yfir auðnum að ráða. Því hvet ég allt félagshyggjufólk að skoða framtíðarmögueika með sameiningu í huga svo að þjófélag okkar geti verið fyrirmynd um velfeðarsamfélag sem allir geti verið stoltir af.


Þórir Steingrímsson | thorir@thorir.is